Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Húsavíkurkaupstaður - Forföll bæjarstjórnarmanns, boðun varamanna

Lögmannsstofa                                           25. maí 2000                       Tilvísun: FEL00000025/1001

Berglind Svavarsdóttir, hdl.

Pósthólf 131

640 Húsavík

 

 

 

Hinn 25. maí 2000 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi, dagsettu 7. janúar 2000, kærði Berglind Svavarsdóttir, hdl., fyrir hönd fjögurra bæjarfulltrúa í minnihluta bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar tilteknar ákvarðanir bæjarstjórnarinnar frá 21. desember 1999 o.fl.

 

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn meirihluta bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar með bréfi, dagsettu 11. janúar 2000. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi Sigurbjörns Þorbergssonar, hdl., dagsettu 3. febrúar 2000.

 

Að beiðni lögmanns kærenda var umsögn meirihluta bæjarstjórnar send honum og barst viðbótarumsögn kærenda með bréfi, dagsettu 22. mars 2000.

 

I.     Málavextir

 

Í kærunni segir meðal annars svo um kæruefnið:

„Þann 21. desember 1999 var haldinn bæjarstjórnarfundur í bæjarstjórn Húsavíkur. Einn aðalmanna í meirihluta bæjarstjórnarinnar, Grímur Snær Kárason, H-lista, mætti ekki á fundinn án þess þó að um lögleg forföll hans væri að ræða. Varamaður hans, Dóra Fjóla Guðmundsdóttir, mætti í hans stað án þess að gengið væri úr skugga um ástæður fjarveru aðalmanns. Á fundi þessum voru meðal annars tekin fyrir mál er tengjast umdeildri sameiningu Fiskiðjusamlags Húsavíkur hf. og Ljósavíkur ehf. en kærendur telja að með þeirri sameiningu sé verið að rýra eignir Húsavíkurkaupstaðar um mörg hundruð milljónir.

Meðan á framangreindum bæjarstjórnarfundi stóð var útvarpað viðtali við Kristján Ásgeirsson bæjarfulltrúa og oddvita meirihlutans í svæðisútvarpi Norðurlands kl. 18.30. Þar kom fram að ástæður þess að bæjarfulltrúinn Grímur Snær Kárason sæti ekki bæjarstjórnarfundinn væru þær að samkomulag væri innan H-listans, sem skipar meirihluta bæjarstjórnar Húsavíkur, um að meirihluti innan meirihlutans réði, sbr. meðfylgjandi útskrift RÚVAK. Ljóst er því að afstaða Gríms var önnur en annarra bæjarfulltrúa H-listans til ýmissa mála er fyrir fundinum lágu. Þess má til að mynda geta að ofannefndur bæjarfulltrúi hefur ekki farið dult með þá skoðun sína að hann sé andsnúinn sameiningu Fiskiðjusamlags Húsavíkur hf. og Ljósavíkur ehf.

Atkvæði bæjarfulltrúans Gríms skipti því sköpum á bæjarstjórnarfundinum þar sem meirihlutinn hefur á að skipa 5 mönnum en minnihlutinn 4. Telja verður yfirgnæfandi líkur á að afgreiðslur bæjarstjórnar hefðu ekki orðið þær sömu ef Grímur hefði mætt á fundinn svo sem hann var skyldugur til.“

 

II.    Málsástæður kærenda

 

1.     Krafa um ógildingu ákvarðana bæjarstjórnarfundar

 

Kærendur krefjast þess að félagsmálaráðuneytið sem úrskurðaraðili við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna, sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, ógildi allar ákvarðanir sem teknar voru á bæjarstjórnarfundi Húsavíkurkaupstaðar þann 21. desember 1999 þar sem fundurinn hafi verið ólögmætur. Samkvæmt framlagðri fundargerð er um að ræða allar ákvarðanir sem teknar voru undir dagskrárliðum 1 til og með 9. Kærendur rökstyðja ólögmæti fundarins með eftirfarandi hætti:

 

Skylda til að mæta á bæjarstjórnarfundi

 

Samkvæmt 27. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og 22. og 33. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Húsavíkurkaupstaðar nr. 472/1999 ber sveitarstjórnarmanni skylda til að sækja alla sveitarstjórnarfundi og fundi í nefndum á vegum sveitarstjórnar nema lögmæt forföll hamli. Í 97. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 er skilgreining á „löglegum forföllum“. Samkvæmt þeim gögnum er fyrir liggja megi ljóst vera að veikindum bæjarfulltrúans eða annarra aðila á hans vegum var ekki til að dreifa þar sem hann var í vinnu þennan dag, sbr. framlagða yfirlýsingu vinnuveitanda hans. Hvorki var veðri né torfærum heldur um að kenna enda mættu allir aðrir bæjarfulltrúar á fund og þaðan af síður er um langan veg að fara þar sem bæjarfulltrúinn býr og starfar á Húsavík. Samkvæmt meðfylgjandi útskrift frá RÚVAK staðfestir oddviti meirihlutans að Grímur hefði ekki mætt á fundinn vegna samkomulags innan meirihlutans. Samkomulag þess efnis að viðkomandi bæjarfulltrúi skuli ekki mæta á fundi ef hann er ekki sammála öðrum er ólöglegt og brýtur í bága við þau ófrávíkjanlegu lagaákvæði sem áður er vitnað til, enda fellur tilvísun í slíkt samkomulag ekki undir skilgreininguna á því hvað séu lögleg forföll.

 

Sveitarstjórnarmenn eru bundnir af lögum og sannfæringu en ekki samkomulagi

 

Samkvæmt 34. gr. bæjarmálasamþykktar Húsavíkurkaupstaðar og 28. gr. sveitarstjórnarlaganna er sérstaklega tekið fram að sveitarstjórnarmaður sé einungis bundinn af lögum og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála og honum beri að gegna störfum af alúð og samviskusemi. Samkomulag um ólögmæta fjarveru bæjarfulltrúa sé því stórfellt brot á tilvitnuðum lögum og reglugerðum og til þess fallið að veikja traust manna á því lýðræði er við búum við. Með samkomulagi þessu sé meirihluti meirihluta bæjarstjórnar því í raun orðinn að minnihluta bæjarstjórnar og það sé andstætt meginreglum í lýðræðisþjóðfélagi að slíkur „meirihluti“ fari með meirihlutavald við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna.

 

Fjarvera hafði áhrif á efni ákvarðana

 

Að auki er á það bent að samkvæmt íslenskum stjórnsýslurétti er sú regla lögð til grundvallar að stjórnvaldsákvarðanir séu ógildanlegar ef málsmeðferð er haldin verulegum annmarka. Ef annmarki á meðferð máls telst almennt til þess fallinn að hafa áhrif á efni ákvörðunar, teljist hún einnig ógildanleg nema sannanlegt sé að annmarkinn hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunar (Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin bls. 82). Annmarkinn verður því að vera verulegur eða annmarkinn verður að hafa haft áhrif á efni ákvörðunar.

 

Þar sem bæjarfulltrúinn Grímur Snær Kárason mætti ekki á fundinn vegna samkomulags innan H-listans um að meirihlutinn réði sé ljóst að afstaða hans var önnur til ýmissa mála en annarra bæjarfulltrúa H-listans. Í þeim málum er vörðuðu málefni Fiskiðjusamlags Húsavíkur hf., en þar var annars vegar um að ræða lið 2 á dagskrá fundargerðar bæjarráðs frá 16. desember 1999 „hluthafasamkomulag við Jökulvík ehf.“ og hins vegar lið 3 á dagskrá sömu fundargerðar „umboð á hluthafafund í Fiskiðusamlagi Húsavíkur hf.“, féllu atkvæði þannig að þeir liðir voru samþykktir með 5 atkvæðum meirihluta gegn 4 atkvæðum minnihluta. Með vísan til útskriftar RÚVAK svo og 28. gr. sveitarstjórnarlaga og 34. gr. bæjarmálasamþykktar Húsavíkurkaupstaðar liggi fyrir að atkvæði hefðu ekki fallið á sama veg og þar af leiðandi hefur fjarvera bæjarfulltrúans haft áhrif á efni þeirra ákvarðana er teknar voru á bæjarstjórnarfundinum.

 

Af framangreindu megi því ljóst vera að brotið hafi verið gegn sveitarstjórnarlögum, bæjarmálasamþykktum og almennum reglum stjórnsýsluréttarins. Þar af leiðandi sé bæjarstjórnarfundurinn ólögmætur og allar þær ákvarðanir sem teknar voru á honum ógildanlegar.

 

2.     Krafa um ógildingu samkomulags

 

Krafa kærenda um ógildingu samkomulags innan H-lista Húsavíkurkaupstaðar byggist á þeirri málsástæðu að slíkt samkomulag sé ólöglegt og þar af leiðandi ógildanlegt. Með því að gera samning þess efnis að sveitarstjórnarmenn mæti einungis á fundi ef þeir eru sammála öðrum sveitarstjórnarmönnum innan sama lista séu hlutaðeigandi sveitarstjórnarmenn vísvitandi að brjóta þær skyldur sveitarstjórnarlaga að þeim beri skylda til að mæta, sbr. 27. gr., og að afstaða þeirra til einstakra mála skuli einungis markast af lögum og þeirra eigin sannfæringu, sbr. 28. gr., sbr. einnig ákvæði 22., 33. og 34. gr. bæjarmálasamþykktar Húsavíkurkaupstaðar. Að öðru leyti er vísað til áður framkominna málsástæðna.

 

3.     Krafa um áminningu

 

Kærendur krefjast þess að ráðuneytið beiti valdi sínu samkvæmt sveitarstjórnarlögum og áminni þá sveitarstjórnarmenn er skipa meirihluta bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar. Krafa kærenda um áminningu ráðuneytisins er reist á 102. gr. sveitarstjórnarlaganna. Ráðuneytið hafi eftirlitshlutverk samkvæmt þeirri grein og samkvæmt því sem að framan er rakið hafi umræddir sveitarstjórnarmenn gróflega brotið skyldur sínar samkvæmt sveitarstjórnarlögum og bæjarmálasamþykktum Húsavíkurkaupstaðar með því að gera ólöglega samning sín í millum um ólögmæta fjarveru bæjarfulltrúa. Vísast um það til þess sem áður hefur komið fram um það efni.

 

III.  Málavextir og málsástæður kærða

 

Í umsögn meirihluta bæjarstjórnar segir svo um málavexti:

„Af hálfu varnaraðila er málavöxtum lýst svo að fyrir bæjarstjórnarfund þann 21. desember 1999 tilkynntu tveir bæjarfulltrúar um forföll á fundinum. Þetta voru þau Anna S. Mikaelsdóttir frá minnihluta og Grímur Snær Kárason frá meirihluta. Bæjarstjóri boðaði varamenn þessara aðila til fundar í þeirra stað og var bæjarstjórn því fullskipuð og ályktunarhæf á fundinum. Tilkynning þessara aðila til bæjarstjóra um forföll var í engu frábrugðin því sem tíðkast hefur til margra ára í bæjarstjórn Húsavíkur en ekki hefur verið venja að bæjarstjóri véfengi bæjarfulltrúa sem boðar forföll á einstaka fund.

Ástæður forfalla Gríms Snæs Kárasonar á fundinum voru þær að hann hafði öðrum brýnni störfum að gegna í vinnu sinni. Það var af skyldurækni hans við vinnuveitanda sinn sem hann ákvað að boða varamann í sinn stað á umræddan fund. Ummæli annarra aðila en Gríms sjálfs um ástæður þess að hann hafi verið fjarverandi skipta ekki máli við úrlausn þessa máls. Ekki var ástæða til að ganga úr skugga um ástæður fjarveru þar sem Grímur gaf skýringar á fjarveru sinni. Undirrituðum er ókunnugt um ástæður fjarveru bæjarfulltrúans Önnu S. Mikaelsdóttur.“

 

Verða nú reifaðar málsástæður varnaraðila til stuðnings sýknukröfu hans.

 

1.     Krafa kærenda um ógildingu á afgreiðslu dagskrárliða 1-9 á bæjarstjórnarfundi 21. desember 1999

 

Sýknukrafa varnaraðila byggir á því að bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar hafi verið löglega skipuð og ályktunarhæf, sbr. ákvæði 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. einnig 18. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Húsavíkurkaupstaðar. Byggt er á því að löglega hafi verið staðið að tilkynningu um forföll og boðun varamanns, sbr. 24. og 27. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. einnig 22. gr. samþykktarinnar.

 

Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. samþykktarinnar skal bæjarfulltrúi sem forfallast um stundarsakir tilkynna bæjarstjóra um forföllin. Bæjarfulltrúa er einnig heimilt að fela öðrum að annast þessa tilkynningu fyrir sig. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er bæjarstjóra skylt að boða þá varamann í stað hins forfallaða aðalmanns. Bæjarstjóri sinnti lagaskyldu sinni og boðaði varamann Gríms til fundar þar sem Grímur komst ekki til fundarins vegna annarra brýnni starfa. Ekki er gert ráð fyrir því að ítarleg rannsókn fari fram af hálfu bæjarstjóra á sannleiksgildi uppgefinnar ástæðu forfalla. Menn eru einfaldlega teknir trúanlegir og gilti það um báða þá bæjarfulltrúa er boðuðu forföll á umræddum fundi.

 

Tilefni framkominnar kæru virðist vera viðtal við oddvita meirihluta H-lista í útvarpi en endurrit þess er lagt fram með kæru minnihlutans. Viðtalið er ekki við þann bæjarfulltrúa sem í hlut á og verður þar af leiðandi ekki lagt til grundvallar við úrlausn máls þessa. Það er réttur hlutaðeigandi bæjarfulltrúa, Gríms Snæs Kárasonar, að gera sjálfur grein fyrir forföllum sínum þar sem málið varðar hann persónulega að þessu leyti.

 

Sérstakar athugasemdir eru gerðar við yfirlýsingu Gunnlaugs K. Hreinssonar vinnuveitanda Gríms Snæs Kárasonar, dagsett 3. janúar 1999 (sic.), sem kærendur leggja fram með kæru sinni. Tilurð skjalsins og form þess gefi tilefni til athugasemda. Í skjalinu er að finna persónulegar upplýsingar um Grím Snæ Kárason teknar upp úr skrá vinnuveitanda hans um viðveru Gríms í vinnu. Þessar upplýsingar eru afhentar þriðja aðila án samþykkis viðkomandi launþega. Með því hafi verið brotið gegn 3. mgr. 5. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989. Gunnlaugur K. Hreinsson er 1. varamaður D-lista í bæjarstjórn. Hann gegnir jafnframt ýmsum trúnaðarstörfum í þágu D-listans í bæjarstjórn. Sérpantaðar yfirlýsingar í þágu D-listans varðandi persónulega hagi Gríms Snæs Kárasonar beri að skoða í því ljósi en ætla megi að Gunnlaugur hafi verið beittur þrýstingi til þessa af hálfu félaga sinna innan D-listans sem kröfðu nefndan Gunnlaug um umrædda yfirlýsingu. Efnislega staðfesti skjalið hins vegar það sem fram hefur komið af hálfu Gríms Snæs Kárasonar að hann hafi verið önnum kafinn í vinnu sinni á fundartíma.

 

Grímur Snær Kárason mat það sjálfur svo að hann hafði öðrum brýnni störfum að gegna þann 21. desember 1999. Hann á það við samvisku sína og sannfæringu hvernig hann rækir skyldur sínar skv. 27. gr. sveitarstjórnarlaga. Hann ber einnig skyldur gagnvart vinnuveitanda sínum og þær skyldur ber honum einnig að rækja í samræmi við samvisku sína og sannfæringu. Rekist þessar skyldur á verði viðkomandi að meta það hvoru starfinu hann telji brýnna að sinna. Það verður ekki með nokkru móti séð að ráðuneytið geti lagt efnislegt mat á það eftir á hvort hafi í raun verið brýnna. Við úrlausn sína verði ráðuneytið á sama hátt og bæjarstjóri að leggja mat viðkomandi bæjarfulltrúa til grundvallar við úrlausn málsins.

 

Tilvísun kærenda til ákvæðis 97. gr. laga um meðferð einkamála eigi ekki við í þessu máli, enda fjallar ákvæðið um málsmeðferð fyrir dómstólum en ekki mætingar á bæjarstjórnarfundi. Úrskurðir félagsmálaráðuneytis um lögmæt forföll sveitarstjórnarmanna hafa ekki lagt þetta ákvæði til grundvallar heldur sérreglur sveitarstjórnarlaga, reglur stjórnarfarsréttar sem mótast hafa í réttarframkvæmd og samþykktir viðkomandi sveitarstjórna.

 

Umfjöllun í kæru um ákvæði 34. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Húsavíkurkaupstaðar og ákvæði 28. gr. sveitarstjórnarlaga beri að skoða í ljósi þess að misskilnings gætir af hálfu kærenda um ástæður forfalla Gríms Snæs Kárasonar á fundi bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar hinn 21. desember 1999. Grímur Snær Kárason hafi í hvívetna sinnt skyldustörfum sínum sem bæjarstjórnarfulltrúi af samviskusemi og í störfum sínum fylgt sannfæringu sinni. Fullyrðingar kærenda um hið gagnstæða séu rangar og ótilhlýðilegar.

 

2. Krafa kærenda um ógildingu samkomulags

 

Sýknukrafa varnaraðila byggir á því að ekkert samkomulag sé í gildi á vegum H-listans sem fari í bága við ákvæði sveitarstjórnarlaga. H-listinn er borinn fram af bæjarmálafélagi Húsavíkurlistans. Að því félagi standi A-listi Alþýðuflokks og G-listi Alþýðubandalags og óháðra. Þessir flokkar hafi gert með sér málefnasamning þar sem meðal annars er fjallað um ákvarðanatöku innan meirihlutans. Samkomulagið felur í sér að meirihluti bæjarstjórnarflokksins ákvarði málsmeðferð komi upp ágreiningur í einstaka málum innan listans. Þetta eru lýðræðislegar verklagsreglur sem varnaraðilar hafa kosið að setja sér. Einstaka bæjarfulltrúar listans eru hins vegar ekki bundnir af verklagsreglunum umfram sannfæringu sína. Það felst ekki í þessum verklagsreglum að bæjarstjórnarmenn mæti ekki á fundi bæjarstjórnar við einhverjar tilteknar aðstæður.

 

3.     Krafa kærenda um áminningu varnaraðila

 

Um sýknukröfu vísast til umfjöllunar um kröfulið nr. 2. hér að ofan.

 

  Við framangreint er því að bæta að með bréfi, dagsettu 10. apríl 2000, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Gríms Snæs Kárasonar um kæruefnið. Svohljóðandi svar barst með bréfi, dagsettu 26. sama mánaðar:

  „Ég staðfesti hér með að ég hafði brýnum skyldum að gegna í starfi mínu umræddan dag og boðaði þess vegna forföll. Ég bendi hinu háa ráðuneyti á að ég hef sótt fundi sveitarstjórnar reglulega og forföll af minni hálfu heyra til algerra undantekninga.“

 

IV.  Niðurstaða ráðuneytisins

 

  Í 1. mgr. 22. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Húsavíkurkaupstaðar nr. 472/1999 er svohljóðandi ákvæði:

  „Bæjarfulltrúa er skylt að sækja alla bæjarstjórnarfundi nema lögmæt forföll hamli, svo sem önnur brýnni skyldustörf eða veikindi.

Sé bæjarfulltrúi forfallaður um stundarsakir skal hann tilkynna eða láta tilkynna forföllin til bæjarstjóra sem boðar þá varamann hans á fund. Varamenn í bæjarstjórn taka sæti í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalmenn þess lista sem þeir eru kosnir af forfallast. Ef framboðslisti er borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum geta aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast.“

 

  Ákvæði 1. mgr. tilvitnaðs ákvæðis er efnislega samhljóða 1. mgr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en er ítarlegra að því leyti að tilgreint er í ákvæðinu hvaða forföll geti talist lögmæt.

 

  Fyrsta málsástæða kærenda er sú að ekki hafi verið lögmætum forföllum til að dreifa í umrætt sinn og því hafi Grímur Snær Kárason gerst brotlegur við tilvitnuð lagaákvæði með fjarveru sinni. Virðist málflutningur kærenda byggjast alfarið á því að oddviti meirihluta bæjarstjórnar hafi í útvarpsviðtali upplýst að vegna samkomulags innan meirihluta bæjarstjórnar hafi Grímur ákveðið að mæta ekki á fundinn heldur kalla inn varamann sem hefði aðra afstöðu til mála sem taka átti fyrir á fundinum. Þessu hefur hins vegar verið mótmælt, bæði af hálfu Gríms sjálfs og fulltrúum H-lista sem skipa meirihluta bæjarstjórnar. Hefur Grímur lýst því yfir að hann hafi talið brýnna að sinna hinu daglega starfi sínu heldur en að mæta á umræddan fund.

 

  Meirihluti bæjarstjórnar bendir réttilega á í umsögn sinni að umrætt útvarpsviðtal var ekki við þann bæjarfulltrúa sem var fjarstaddur og að þar sem málið varði hann persónulega verði hann sjálfur að gera grein fyrir fjarveru sinni. Engu að síður telur ráðuneytið að kærendum hafi verið rétt að leggja fram útskrift viðtalsins til stuðnings kæru sinni, en tekið skal fram að það eitt út af fyrir sig getur ekki fært fullar sönnur á ástæður fyrir fjarveru bæjarfulltrúans.

 

  Umrætt ákvæði sveitarstjórnarlaga hefur ekki að geyma vísbendingar um hvað teljist „lögmæt forföll“. Ráðuneytið telur þó að þar falli tvímælalaust undir þau atvik sem lýst er í fyrrgreindu ákvæði samþykktar um stjórn og fundarsköp Húsavíkurkaupstaðar, þ.e. önnur brýnni skyldustörf og veikindi. Bæði sveitarstjórnarlög og fyrrgreind samþykkt eru hins vegar þögul um hvernig fjallað skuli um meint brot á mætingarskyldu og hvort slík brot geti haft réttaráhrif. Virðist a.m.k. ljóst að bæjarstjóra eða bæjarstjórn er ekki falið sérstaklega samkvæmt lögunum að úrskurða um lögmæti fjarveru, sbr. til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 53. gr. laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991.

 

  Ákvæði 102. og 103. gr. sveitarstjórnarlaga veita félagsmálaráðuneytinu víðtækt vald til að fjalla um vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna og veita sveitarstjórn áminningu ef hún vanrækir skyldur sínar samkvæmt lögunum. Ekki er tekið fram í 102. gr. hvort heimilt sé að veita einstökum sveitarstjórnarmönnum áminningu vegna vanrækslu, svo sem varðandi slaka fundarsókn, en telja verður að ákvæðið útiloki ekki slíka lögskýringu. Ráðuneytið telur ennfremur ljóst að á grundvelli 103. gr. sé einstökum sveitarstjórnarmönnum og öðrum íbúum sveitarfélags heimilt að vekja athygli ráðuneytisins á meintu broti gegn mætingarskyldu sveitarstjórnarmanns.

 

  Í kæru þeirri sem hér er til umfjöllunar hefur minnihluti bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar einungis vakið máls á fjarveru Gríms Snæs Kárasonar á einum bæjarstjórnarfundi. Með tilliti til umsagnar Gríms sjálfs, þar sem fram kemur að forföll af hans hálfu heyri til algerra undantekninga, lítur ráðuneytið svo á að því sé ekki haldið fram í málinu að umræddur bæjarfulltrúi hafi gerst sekur um endurtekna eða stórfellda vanrækslu á mætingarskyldu.

 

  Ráðuneytið telur fyrir því langa hefð að það sé almennt lagt í mat einstakra sveitarstjórnarmanna hvort brýnar ástæður réttlæti fjarveru þeirra á löglega boðuðum sveitarstjórnarfundi. Fer því fjarri að gerðar séu svo strangar kröfur sem gerðar eru í 97. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem kærendur vitna til í erindi sínu, þ.e. að forföll séu því aðeins heimil að sveitarstjórnarmaður yrði ella fyrir „verulegum vinnumissi eða tjóni á atvinnu eða öðrum hagsmunum“.

 

Fyrir liggur yfirlýsing framkvæmdastjóra GPG Fiskverkunar um að Grímur Snær Kárason var við vinnu í fyrirtækinu hinn 21. desember 1999 er bæjarstjórnarfundur stóð yfir. Ennfremur liggur fyrir umsögn Gríms sjálfs um að hann hafi talið brýnar skyldur réttlæta forföll á umræddum bæjarstjórnarfundi. Ráðuneytið telur því með vísan til alls sem að framan er rakið að um lögmæt forföll hafi verið að ræða, þrátt fyrir að útvarpsviðtal við formann bæjarráðs sama dag kunni að gefa tilefni til að ætla að fleiri ástæður hafi valdið fjarveru bæjarfulltrúans. Er þá einnig tekið tillit til framkominna skýringa H-lista varðandi ákvarðanatöku fulltrúa listans í einstökum málum sem ráðuneytið metur fullnægjandi.

 

Í 24. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er fjallað um hvernig varamenn taka sæti í sveitarstjórn er aðalmenn forfallast um stundarsakir. Almennt taka varamenn sæti í þeirri röð sem þeir eru kosnir, en í 2. mgr. 24. gr. kemur fram að ef framboðslisti er borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum þá geti aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.

 

Á fundi bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar hinn 6. júlí 1998 var lögð fram yfirlýsing aðalmanna Húsavíkurlistans um innköllun varamanna í bæjarstjórn og segir þar meðal annars:

„Í forföllum aðalmanns af Húsavíkurlistanum kemur 1. varamaður ávallt inn í bæjarstjórn, komi hann því við, ella 2. varamaður og svo koll af kolli. Ef um lengri forföll aðalfulltrúa er að ræða - til hálfs árs eða lengur - eða aðalfulltrúi falli frá, flytjist burtu eða forfallist varanlega á annan hátt frá því að sitja í sveitarstjórn, skal heimilt að velja varamanninn úr sama flokki.“

 

Ef um lögmæt forföll er að ræða ber að boða varamann með þeim hætti sem ákveðið er í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélags, að gættum ákvæðum 24. gr. sveitarstjórnarlaga. Af hálfu kærenda hefur ekki verið gerð athugasemd við hvernig staðið var að þeirri boðun og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að fylgt hafi verið lagaákvæðum og fyrrgreindri yfirlýsingu við boðun varamanna á bæjarstjórnarfundinn hinn 21. desember 1999.

 

Að auki telur ráðuneytið ljóst af gögnum málsins að ekki liggi fyrir formlegt samkomulag innan H-listans um að bæjarfulltrúar listans víki sæti í málum ef þeir eru ekki sammála öðrum bæjarfulltrúum listans um afgreiðslu þeirra. Getur útskrift af útvarpsviðtali eitt og sér ekki fært sönnur á slíkt samkomulag. Er því ekki fyrirliggjandi ákvörðun í málinu sem ráðuneytið getur tekið til frekari umfjöllunar og er þessari kröfu kærenda því vísað frá.

 

Hvað varðar kröfu kærenda um ógildingu ákvarðana sem teknar voru á fundinum skv. liðum 1-9 í fundargerð telur ráðuneytið ástæðu til að taka fram að ákvarðanir sveitarstjórnar sem teknar eru á löglega boðuðum fundi verða ekki ógiltar af þeirri ástæðu einni að ekki hafi verið um lögmæt forföll bæjarfulltrúa að ræða, að öðrum formskilyrðum uppfylltum. Er í því sambandi sérstaklega vitnað til 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er gert ráð fyrir að sveitarstjórnarfundur sé ályktunarhæfur ef meira en helmingur sveitarstjórnarmanna er mættur á fundinn. Er því ekki gerð ófrávíkjanleg krafa um að sveitarstjórn sé ætíð fullskipuð.

 

Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið ekki tilefni til að ráðuneytið veiti áminningu í máli þessu á grundvelli 2. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

Beðist er velvirðingar á vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 

Hafnað er kröfu kærenda, Aðalsteins Skarphéðinssonar, Dagbjartar Þyríar Þorvarðardóttur, Önnu Sigrúnar Mikaelsdóttur og Sigurjóns Benediktssonar, um ógildingu ákvarðana bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar á bæjarstjórnarfundi hinn 21. desember 1999.

Vísað er frá kröfu kærenda um ógildingu „samkomulags innan H-lista Húsavíkurkaupstaðar um að bæjarfulltrúar þess lista sitji heima ef þeir eru ósammála öðrum bæjarfulltrúum H-listans“.

Hafnað er kröfu kærenda um að ráðuneytið áminni þá bæjarfulltrúa er skipa meirihluta bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Afrit: Meirihluti bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum